Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 581  —  314. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (tryggingagjald o.fl.).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. 2. minni hluti gerir tillögur um breytingu á lögum um tryggingagjald og lögum um tekjuskatt er snýr að barnabótum.

Tryggingagjald.
    Smærri fyrirtæki um allt land eiga nú undir högg að sækja. Mikilvægt er að sem flest þeirra geti rétt úr kútnum hratt og vel þegar heimsfaraldurinn hefur gengið yfir, ráðið til sín starfsfólk og hafið verðmætasköpun. Að styðja við smærri fyrirtæki gefur ávinning til lengri tíma með samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.
    Tímabundið afnám tryggingagjalds fyrir einyrkja og smáfyrirtæki auk snarprar lækkunar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er einfaldasta og besta leiðin til að styðja við atvinnulífið, verja störf og fjölga störfum. Aðgerðin nýtist vel fjölda fyrirtækja í vanda, svo sem í ferðaþjónustu og menningartengdri starfsemi, en þjónar ekki síður þeim tilgangi að viðhalda líflegri samkeppni í öllum greinum atvinnulífsins.
    Annar minni hluti leggur til að veittur verði 2 millj. kr. afsláttur af tryggingagjaldi árið 2021. Með afslættinum félli niður tryggingagjald fyrir einyrkja og örfyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki fengju góðan afslátt og jafnframt er létt undir með þeim stærri. Tillögunni er ætlað að auka hvata til ráðninga og verja störf ásamt því að auðvelda fyrirtækjum að standa við lífskjarasamningana.

Barnabætur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á tekjuskattslögum sem gerir ráð fyrir því að barnabætur byrji að skerðast við 351.000 kr. á mánuði sem er lágmarkstekjutryggingin samkvæmt lífskjarasamningnum. Barnabætur eru öflugt tæki til jöfnunar. Jafnaðarmenn leggja á það áherslu að barnabætur séu fyrir allar barnafjölskyldur og til þess fallnar að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri.
    Annar minni hluti leggur til að tekið verði nú fyrsta skrefið í þá átt að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en við meðallaun. Með 2 milljarða kr. viðbót við barnabætur geta neðri skerðingarmörkin farið upp í 410.000 kr. á mánuði eða 820.000 kr. fyrir hjón. Leggur 2. minni hluti til að neðri skerðingarmörk barnabóta hækki um 2.040.000 kr. fyrir hjón og 1.020.000 kr. fyrir einstaklinga. Þá er lögð til samsvarandi krónutöluhækkun á efri skerðingarmörkum barnabóta.
    Verði breytingartillaga annars minni hluta samþykkt munu tekjuskerðingarmörk einstæðs foreldris fara úr 3,9 millj. kr. í 4,92 millj kr. og hjá hjónum úr 7,8 millj. kr. í 9,84 millj. kr.

    Með hliðsjón af framangreindu leggur 2. minni hluti til eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Á árinu 2021 skal veita hverjum launagreiðanda 2.000.000 kr. afslátt af tryggingagjaldi.
     2.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. A-liðar 68. gr. laganna:
                  a.      Í stað „7.800.000 kr.“, „11.000.000 kr.“, „3.900.000 kr.“ og „5.500.000 kr.“ í 1. tölul. kemur: 9.840.000 kr.; 13.040.000 kr.; 4.920.000 kr.; og: 6.520.000 kr.
                  b.      Í stað „11.000.000 kr.“ og „5.500.000 kr.“ í 2. tölul. kemur: 13.040.000 kr.; og: 6.520.000 kr.
                  c.      Í stað „7.800.000 kr.“ og „3.900.000 kr.“ í lokamálslið kemur: 9.840.000 kr.; og: 4.920.000 kr.

Alþingi, 14. desember 2020.

Oddný G. Harðardóttir.